Tónlist

Stebbi og Eyfi ferðast um landið

Þeir félagar eru á leiðinni í sína fyrstu tónleikaferð um landið.
Þeir félagar eru á leiðinni í sína fyrstu tónleikaferð um landið.

Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson eru á leiðinni í tónleikaferð um landið, sem hefst í Ólafsvíkurkirkju í Ólafsvík á mánudagskvöld. Munu þeir jafnframt heimsækja Akureyri, Akranes, Vestmannaeyjar, Dalvík, Keflavík og fleiri bæi á ferð sinni. Hefjast allir tónleikarnir klukkan 20.30.

„Við höfum aldrei farið á svona túr áður, svona Bubbatúr,“ segir Eyfi. „Það er mikil spenna í okkur og það virðist vera góð stemning fyrir því að fá okkur á þeim stöðum sem við erum búnir að bóka.“

Þeir félagar munu á tónleikunum syngja lög af plötu sinni „Nokkrar notalegar ábreiður“ sem kom út fyrir síðustu jól, þar á meðal Pínulítið lengur, Og svo er hljótt og hið vinsæla Góða ferð. Auk þess syngja þeir slagara á borð við Álfheiði Björk, Líf, Danska lagið og ef til vill lög eftir Simon & Garfunkel.

Eyfi segist vera hæstánægður með viðbrögðin við plötunni og lofar annarri einhvern tímann í framtíðinni. Hvað spilamennsku varðar virðast þeir vera rétt að byrja. „Við erum búnir að spila saman í sautján ár og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það haldi áfram í sautján ár í viðbót,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×