City vann Ofur­bikarinn eftir víta­spyrnu­keppni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn City fögnuðu vel þegar sigurinn var í höfn.
Leikmenn City fögnuðu vel þegar sigurinn var í höfn. Vísir/Getty

Manchester City tryggði sér þátttökurétt í leiknum um Ofurbikarinn eftir sigur á Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. Sevilla vann Evrópudeildina og tryggði sér þar með einnig þátttökurétt.

Spænska liðið skoraði fyrsta markið í kvöld og ætlaði greinilega ekki að tapa sínum sjötta úrslitaleik um Ofurbikarinn. Youssef En-Nesyri skoraði þá frábært skallamark eftir fyrirgjöf Marcos Acuna.

Í síðari hálfleik jafnaði Cole Palmer metin fyrir City en hann skoraði þá einnig með skalla, eftir sendingu frá hinum spænska Rodri.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1-1 og þá var strax farið í vítaspyrnukeppni.

Bæði lið skoruðu úr sínum fyrstu fjórum spyrnum af nokkuð miklu öryggi og eftir að Kyle Walker skoraði úr fimmtu spyrnu Manchester City var ljóst að Nemanja Gudelj varð að skora fyrir Sevilla til að tryggja liðinu bráðabana.

Það tókst ekki, Gudelj þrumaði í þverslána og leikmenn Manchester City fögnuðu góðum sigri. Eins og áður segir er þetta í fyrsta sinn sem Manchester City vinnur sigur í Ofurbikar UEFA og getur félagið nú kallað sig fjórfalda meistara eftir frábært síðasta tímabil. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira