Fótbolti

Timber sleit krossband í fyrsta leik og þarf í aðgerð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Búast má við því að Jurrien Timber verði frá í lengri tíma.
Búast má við því að Jurrien Timber verði frá í lengri tíma. Visionhaus/Getty Images

Varnarmaðurinn Jurrien Timber, sem gekk í raðir Arsenal frá Ajax í sumar, sleit krossband í fyrsta leik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni er Arsenal vann 2-1 sigur gegn Nottingham Forest.

Timber gekk í raðir Arsenal fyrir 34 milljónir punda í síðasta mánuði og hafði farið vel af stað með liðinu á undirbúningstímabilinu. Þá var hann einnig í byrjunarliðinu þegar Arsenal og Manchester City börðust um Samfélagsskjöldinn áður en tímabilið í ensku úrvalsdeildinni hófst.

Timber var aftur í byrjunarliði Arsenal er liðið tók á móti Nottingham Forest í fyrsta leik tímabilsins síðastliðinn laugardag, en þurfti að fara af velli snemma í síðari hálfleik vegna meiðsla. 

Nú hefur það verið staðfest að meiðslin eru alvarleg. Arsenal greindi frá því á samfélagsmiðlum sínum nú fyrir skemmstu að Timber hefði slitið krossband og að hann væri á leið í aðgerð á næstu dögum.

Í yfirlýsingu Arsenal segir að leikmaðurinn verði frá í einhvern tíma, en nánari tímarammi er ekki gefinn upp.

Timber, sem er 22 ára, lék 47 leiki fyrir Ajax á síðasta tímabili og voru mörg stórlið sem höfðu áhuga á því að fá hann í sínar raðir. Að lokum var það Arsenal sem hreppti hnossið, en liðið þarf nú að reiða sig af án hollenska landsliðsmannsins næstu vikur og mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×