Körfubolti

Thompson gæti yfirgefið Golden State næsta sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klay Thompson í kunnuglegri stöðu.
Klay Thompson í kunnuglegri stöðu. getty/Ezra Shaw

Klay Thompson hefur leikið allan sinn feril í NBA-deildinni með sama liðinu, Golden State Warriors. Það gæti breyst næsta sumar.

Samningur Thompsons við Golden State rennur út eftir næsta tímabil en lítið hefur þokast í samningaviðræðum hans við félagið að sögn körfuboltavéfréttarinnar Adrians Wojnarowski.

„Mér er sagt að það hafi ekki orðið nein breyting á varðandi framlengingu á samningi hans við Golden State. Það ber enn talsvert í milli þegar kemur að lengd samningsins og peningum og það er raunhæfur möguleiki að Thompson verði samningslaus næsta sumar,“ sagði Wojnarowski í NBA Countdown á ESPN.

Thompson hefur myndað hryggjarstykkið í liði Golden State á blómaskeiði félagsins ásamt Stephen Curry, hinum Skvettubróðurnum, og Draymond Green. Saman hafa þeir fjórum sinnum orðið NBA-meistarar með Golden State.

Á síðasta tímabili skoraði Thompson 21,9 stig að meðaltali í leik og var með 41,2 prósent þriggja stiga nýtingu. Hinn 33 ára Thompson er ein besta skytta í sögu NBA og er með 19,8 stig að meðaltali í leik og 41,6 prósent þriggja stiga nýtingu á ferlinum.

Golden State vann 44 leiki í deildarkeppninni á síðasta tímabili og komst í undanúrslit Vesturdeildarinnar þar sem liðið laut í lægra haldi fyrir Los Angeles Lakers, 4-2. Thompson skoraði 18,5 stig að meðaltali í leik í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×