Körfubolti

Franska undrið stimplaði sig inn í NBA deildina

Aron Guðmundsson skrifar
Wembanyama fékk höfðinglegar móttökur fyrir sinn fyrsta NBA leik
Wembanyama fékk höfðinglegar móttökur fyrir sinn fyrsta NBA leik Vísir/Getty

Það ríkti mikil eftir­vænting meðal körfu­bolta­á­huga­fólks fyrir leik San Antonio Spurs og Dallas Ma­vericks í 1. um­ferð NBA deildarinnar í nótt. Um var að ræða fyrsta NBA leik Victor Wembanyama, leikmanns Spurs, sem mikils er ætlast til af í deildinni.

Wembanyama er af flestum talinn mest spennandi leikmaðurinn til að koma í gegnum nýliðaval NBA deildarinnar síðan LeBron James var valinn fyrstur af Cleveland Cavaliers árið 2003. 

San Antonio Spurs valdi Wembanyama í fyrsta valrétti nýliðavalsins þetta árið og í nótt lék hann sinn fyrsta NBA leik. 

Eftirvæntingin í Frost Bank Center, heimavelli Spurs var gríðarlega mikil en Wembanyama lenti snemma í villuvandræðum í leiknum. Það gerði honum erfitt fyrir framanaf leiknum. 

Franska undrið átti þó eftir að eiga flotta spretti í leiknum sem gefa tóninn fyrir það sem koma skal. Sterkur fjórði leikhluti sá til þess að Wembanyama endaði á því að skora fimmtán stig í leiknum, taka fimm fráköst, gefa tvær stoðsendingar, stela boltanum tvisvar og verja eitt skot. Hann hitti úr sex af sínum níu skotum, þar á meðal þremur þristum. 

Leiknum lauk með sigri Dallas Mavericks, 126-119 og var það sem fyrr Luka Doncic sem fór mikinn í leik Dallas. Slóveninn skilaði af sér þrefaldri tvennu í leiknum. 

Súrealísk upplifun

„Það eru auðvitað miklar tilfinningar sem bærast um innra með mér í tengslum við þetta kvöld,“ sagði Wembanyama í viðtali eftir leik. „Þetta hefði auðvitað verið fullkomin upplifun ef við hefðum sigrað leikinn.“

Hann segir það hafa verið súrealískt að sjá alla stuðningsmenn San Antonio Spurs sem voru samankomnir í Frost Bank Center fyrir leik. 

Wembanyama er nú formlega mættur í NBA-deildinaVísir/Getty

Hvað villuvandræðin sem hann lenti í varðar, hafði Wembanyama þetta að segja um þau:

„Það er auðvitað pirrandi að hafa komið sér í þessa stöðu en ég reyni alltaf að halda í jákvæðnina því ég veit að það er í hag liðsins. Ég get ekki látið minn pirring smita út frá sér í leik liðsins.

Gerði vel í krefjandi aðstæðum

Hjá San Antonio Spurs spilar Wembanyama undir stjórn hins reynslumikla þjálfara Greg Popovich. Sá var ánægður með það sem hann sé frá Wembanyama í frumraun leikmannsins í deild þeirra bestu.

„Eitt af því erfiðasta sem leikmaður í þessari deild gengur í gegnum er að lenda í villuvandræðum,“ sagði Popovich í viðtali eftir leik. „Þegar að þú lendir í því áttu erfitt með að komast í takt við leikinn. Mér fannst hann þó sína mikinn þroska í þessum aðstæðum, þrátt fyrir að vera ungur að árum komst hann í gegnum þetta og átti sterka frammistöðu á síðustu sjö mínútum leiksins þar sem að hann lét ljós sitt skína.“

Greg Popovich, þjálfari San Antonio SpursVísir/Getty

Hans hæfileikar hafi skinið í gegn á ákveðnum tímapunktum leiksins.

„Við settum upp nokkur kerfi fyrir hann og hann gerði hluti sem margir aðrir hefðu ekki geta gert. Miðað við allt finnst mér hann hafa skilað af sér frábærri frammistöðu.“

Önnur úrslit næturinnar í NBA deildinni:

Houston Rockets 86 - 116 Orlando Magic

Boston Celtics 108 - 104 New York Knicks

Washington Wizards 120 - 143 Indiana Pacers

Atlanta Hawks 110 - 116 Charlotte Hornets

Minnesota Timberwolves 94 - 97 Toronto Raptors 

Detroit Pistons 102 - 103 Miami Heat 

Cleveland Cavaliers 114 - 113 Brooklyn Nets 

New Orleans Pelicans 111 - 104 Memphis Grizzlies 

Oklahoma City Thunder 124 - 104 Chicago Bulls 

Portland Trailblazers 111 - 123 Los Angeles Clippers 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×