Erlent

Fundu hlerunarbúnað í fundar­her­bergi ráð­herra

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Tusk er forsætisráðherra Póllands.
Donald Tusk er forsætisráðherra Póllands. EPA/MICHAL MEISSNER

Starfsmenn öryggisstofnana Póllands fundu hlerunarbúnað í herbergi þar sem pólskir ráðherrar áttu að funda í dag. Búnaðurinn fannst við hefðbundna leit í aðdraganda fundarins en Pólverjar hafa ekki sagt hvort þeir telji sig vita hverjir komu honum fyrir.

Einn talsmanna pólskra yfirvalda sagði á samfélagsmiðlum í morgun að hlerunarbúnaðurinn hafi verið tekinn í sundur þegar hann fannst. Þá sé málið enn í rannsókn.

DW hefur eftir þessum sama talsmanni, sem var í viðtali við pólskan miðil, að hlerunarbúnaðurinn hafi bæði geta tekið upp hljóð og myndefni. Erfitt sé að segja til um hvort hann hafi verið þarna um árabil eða honum hafi verið komið fyrir nýlega.

Pólland hefur verið mikilvægur viðkomustaður hergagnasendinga Vesturlanda til Úkraínu og þar að auki hafa Pólverjar staðið þétt við bakið á Úkraínumönnum. Samhliða þessu hafa ráðamenn í Póllandi aukið viðbúnað vegna mögulegra njósna.

Þá kom í ljós í gær að pólskur dómari sem hefur verið sakaður um njósnir fyrir Rússa flúði til Belarús og bað þar um hæli. Nokkur önnur njósnamál sem tengjast Rússlandi hafa litið dagsins ljós í Póllandi á undanförnum mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×