Innlent

SA og SSF skrifuðu undir lang­tíma­kjara­samning

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir er framkvæmdastjóri SA.
Sigríður Margrét Oddsdóttir er framkvæmdastjóri SA. Stöð 2/Arnar

Í gær skrifuðu Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) undir langtímakjarasamning. Samningurinn byggir á samningnum sem undirritaður var við meirihluta félaga á almennum vinnumarkaði í mars. 

Í tilkynningu frá SA er haft eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA, að það sé ánægjulegt að klára samninginn.

„Nú er tíminn til þess að tileinka okkur nýja nálgun til þess að verja lífskjör og skapa skilyrði fyrir fjárfestingu í frekari verðmætasköpun,“ er haft eftir henni. 

Staðan í viðræðum við Félag flugmálastarfsmanna ríkisins og Sameyki sé erfið og alvarleg og sýni hvar brugðið getur út af í þeim samningum sem eftir eru. 

„Hversu miklar launahækkanir samræmast verðstöðugleika eru ekki endilega augljósar hagstærðir en eftir mikla vinnu í síðustu kjaralotu náðum við saman um það í tímamótasamningum. Okkur ber saman að standa vörð um þá niðurstöðu, öðruvísi náum við ekki langþráðum stöðugleika,“ er haft eftir henni.

Samningur SA og SFF gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar árið 2028.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×