Skoðun

Lexía lærð á hálfum degi

Stefanía Arnardóttir skrifar

Ég gæti legið svona í allan dag. Hlýjað unganum mínum með nærverunni minni. Eitthvað bjóst ég við að þetta tímabil yrði erfiðara, að sinna nýbura, verandi oft ein án aðstoðar. Ekki misskilja mig, ég er illa sofin, finn fyrir þreytu, upplifi hvað það er flókið að fara milli staða, er oftar en ekki almennilega illa lyktandi, gleymdi eflaust að tannbursta mig — rétt eins og eðlilegt er fyrir konu í minni stöðu. En það sem ég finn líka fyrir, og það sterkara, er hvað ég elska að sinna barninu mínu. Líka um miðjar nætur, líka þegar hún er pirruð á kvöldin, líka þegar ég er aum í brjóstunum og ólýsanlega þreytt. Það er ekkert af þessu neitt mál, þetta er ekki vinna, þetta er ekki vesen. Ég er enginn dýrlingur fyrir það að sinna barninu mínu, það skuldar mér enginn neitt fyrir vel unnin störf. Ég kom þessu barni inn í heiminn og það mun fá að eiga móður sem langar til að vera móðir með öllu því sem þessu hlutverki fylgir. Víki ég frá þeirri reglu á einhverjum tímapunkti verður það dagur þar sem ég neyðist til að horfa djúpt inn á við.

Ég finn fyrir miklu þakklæti að mér líði svona, því það er ekki sjálfsagt, ekki síst í ljósi þess hve „flotta“ áfallasögu ég hef að baki. Ég mætti í þetta hlutverk viðbúin hverju sem er og tilbúin til að glíma við allar þær áskoranir sem hlutverkið bæri í skauti sér. En hingað til hefur allt farið fram úr vonum.

Ég elska að gefa henni á brjóst, skipta um bleyjur, láta hana ropa, baða, knúsa og vera hjá henni og með henni. Ég geri bara það sem ég geri og þarf ekki að hugsa mikið út í það. Ég hef ekki þurft að mana mig í þetta hlutverk, það hefur bara komið að sjálfu sér. Hugafarið sem ég hafði í gegnum meðgönguna og síðar á þessum umfangsmiklum tíma hefur verið einfaldlega þetta: Erfiði eru tímabundin. Erfiðir dagar munu koma og munu þeir fara. Barnið mun eldast og munu ný tímabil og nýjar áskoranir gera vart við sig, á meðan þær gömlu líða hjá og leysast. Í þokkabót er alltaf til einhvers konar lausn á öllu. Lausnin er kannski ekkert endilega sú hentugasta en hún er til. Að þessu sögðu verður því aldrei logið að þessi stelpa hafi verið rólegt barn, það get ég fullyrt.

Einhverra hluta vegna fór ég að velta fyrir mér hvort að ég gæti ekki gert hlutina betur og ákvað að prófa í gær að innstilla nýja rútínu sem ég hafði lesið mig til um. Eða kannski ætti maður ekki að segja „nýja“ því það var fyrir engin rútína til að hörfa frá. Fram að þessu hafði ég bara fylgt eigið innsæi, prófað eitt og annað, breytt til eftir hentugsemi og fylgt takti barnsins. Ég fæ ekkert um það ráðið að hún vilji vaka til sex á morgnana flesta daga, ég hef bara hliðrað lífinu í samræmi við það. Það besta í stöðunni hefur verið að reyna að vera svolítið skemmtileg, eða a.m.k. lifandi, á meðan á þessu stendur. Hlutirnir verða ekki svona að eilífu. Dagarnir munu eiga sér annan hrynjanda síðar meir.

Líf okkar mæðgnanna hefur ekki verið flókið

Varðandi þessa nýju rútínu, þá var hún í sjálfu sér ekki flókin og miðaðist að því að sinna þörfum barnsins í ákveðinni röð, í ákveðnum bylgjum, sem yrðu svo endurteknar yfir daginn og fylgdu eftir ákveðum tímaramma. Það var fullyrt að sjö vikna gamla barnið mitt væri alveg nógu gamalt í þetta verkefni. Þannig hóf ég daginn á þessari rútínu en tók fljótlega eftir því hvernig hlutirnir, af náttúrunni hendi, snéru aftur á bak í mínu tilfelli. Takturinn var okkur framandi, tímasetningarnar og takmarkanirnar óþægilegar – ramminn var allt of þröngur og þetta virkaði ekki rétt. Ég fór að upplifa tímaþröng, hraða og streitu. Ekki endilega vegna þess að barnið mitt eyddi eitthvað meiri tíma á brjósti en sett var, eða hún svæfi eitthvað mikið lengur eða styttra en upp var lagt. Það var ekkert skrítið við þessa rútínu, per se.

Ég entist í þessu prógrammi í hálfan dag og eyddi ég restinni af deginum í að biðja hvítvoðunginn minn afsökunar, eða öllu heldur þurfti ég aðeins að fyrirgefa sjálfri mér.

Við þessar breytingar varð hún vælnari í svefni, svefninn óvenjulega stuttur og síður nærandi, brjóstagjöfin einkenndist af óhuggandi gráti og var hún allan tímann pirruð meðan hún vakti. Daglegir atburðir sem höfðu áður verið ánægjulegir og áreynslulausir voru það allt í einu ekki. Svo var ekkert sem ég gat gert til að róa hana. Ég upplifði mig ráðalausa, á hátt sem ég hafði hingað til aldrei upplifað — þrátt fyrir margar grátgjarnar og áreynslumiklar nætur. En þetta var í sjálfu sér ekki megin vandamálið, því börn gráta og stundum gráta þau mikið.

Ég fann sjálfa mig færast andlega fjær barninu mínu og fann ég hvað það særði mig mikið

Þessi mekaníski hugsunarháttur, og þessi endurtekna rútína sem miðaðist að því að mæta grunnþörfum barnsins með mig í stjórnunarsætinu, særði mig.

Ef ég hefði fylgt þessu eftir hefði barnið eflaust á endanum sætt sig við breytingarnar, hætt að streitast á móti og hefði ég getað fengið meiri tíma fyrir sjálfa mig, til að þrífa, elda, lesa, skrifa eða hvað eina sem mér dytti í hug. Lífið hefði orðið mun fyrirsjáanlegra og fyrir mig frjálsara en það var og annars yrði.

Ég fann tárin streyma niður kinnarnar mínar á meðan hún grét hástöfum. Ég fann mig í fyrsta skiptið missa stjórn á tilfinningunum mínum frá því dóttir mín fæddist, en þetta voru engin gleðitár heldur voru þetta tár sorgar.

Í sorginni fann ég fyrir því hvernig ég væri ekki að hlusta á eigið innsæi. Mér fannst ég ekki vera að sinna þörfum barnsins míns. Jú, ég var að sinna grunnþörfunum hennar en ég var ekki að sinna því sem gerir lífið notalegt. Ég fann ekki fyrir þeirri ánægju sem ég hafði fundið við að eiga barn. Ánægju sem ég hafði enga síður áður haft þrátt fyrir sambærileg erfiði í aðstæðum.

Ég gat ekki hugsað mér að takmarka þann tíma sem ég eyði með dóttur minni, í þessari nánd, þó ég hefði annars vissulega verið líkamlega hjá henni allan sólarhringinn.

Við erum alla daga að upplifa tíma sem við fáum aldrei tilbaka og var þetta ekki dagurinn, „rútínan,“ sem mig langaði til að eiga. Án þess að bögga þessa útlistun og þá sem rútínan eða ramminn hefur hjálpað, þá var ég þarna ekki að vera góð við sjálfa mig.

Þarna var ég ekki að fylgja hjartanu mínu

Að liggja í nándinni þarf ekki að vera flókið né neinn sérstakur atburður. Stundum er ég að segja henni brandara sem hún hlær ekki af. Stundum er ég að spila tónlist. Stundum geri ég ekkert. Á öðrum tímum er ég að lesa eða horfa á eitthvað á meðan ég fylgist inn á milli með andadrættinum hennar. Dóttir mín fær frið til að stara út í lofið þegar henni hentar en líka brosa til mín þegar það kemur. Aðalmálið er hvernig okkur líður. Að innan í mér upplifi ég ró og traust til sjálfrar mín. Að mig langi að vera nálægt barninu mínu. Að ég sé ekkert að leggja á mig óþarfa kröfur, óþarfa stress, óþarfa vesen. Bara leyfa deginum að eiga sinn takt og vanagang – hvað sem það þýðir.

Leyfa mér einfaldlega að lifa og njóta

Fái ég bara að lifa einu lífi, langar mig til þess að lifa því með þér elsku unginn minn.

Höfundur er með B.A. gráðu í sálfræði sem sér fegurðina í móðurhlutverkinu á meðan hún lærir inn á þessi nýju hlutskipti í lífinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×