Erlent

Netanjahú hafnar handtökuskipuninni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Benjamín Netanjahú hafnar algjörlega ákvörðun aðalsaksóknara Alþjóðlega sakamáladómstólsins að fara fram á handtökuskipun á hendur sér.
Benjamín Netanjahú hafnar algjörlega ákvörðun aðalsaksóknara Alþjóðlega sakamáladómstólsins að fara fram á handtökuskipun á hendur sér. AP/Abir Sultan

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hafnar alfarið handtökuskipun á hendur sér sem aðalsaksóknari hins Alþjóðlega sakamáladómstóls hefur farið fram á. Aðalsaksóknarinn sakar Netanjahú, Yoav Gallant varnarmálaráðherra og þrjá leiðtoga Hamas um aðild að stríðsglæpum í mannskæðum átökum Hamas og Ísraels sem staðið hafa yfir í um sjö mánuði.

Netanjahú segir handtökuskipunina „fáránlega og falska“ og hét því að Ísraelsmenn héldu áfram baráttu sinni við Hamas þar til að algjörum sigri yrði náð.

Það kemur í hlut þriggja dómara við dómstólinn að ákveða hvort framlögð sönnunargögn dugi til að réttlæta útgáfu handtökuskipana. Yfirleitt vara slík málaferli í tvo mánuði.

Netanjahú og varnarmálaráðherrann hans, Yoav Gallant, standa ekki frammi fyrir tafarlausri handtöku þar sem Ísrael hefur ekki aðild að dómstólnum en komist dómarar að þeirri niðurstöðu að handtökuskipunin sé réttlát mun það gera þeim erfiðara um vik að ferðast erlendis.

Netanjahú sagði ákvörðun aðalsaksóknarans ekki aðeins miðaða að sér og Gallant heldur að Ísraelsríki öllu. Jafnframt segist hann hafna alfarið samanburði Khans á ísraelskum yfirvöldum og Hamasliðum sem hann kallar „algjöra skrumskælingu á raunveruleikanum.“

„Þvílík ósvífni að setja Hamasliða, sem myrtu, brenndu, slátruðu, nauðguðu og rændu bræðrum okkar og systrum, á sama stall og hermenn ísraelska hersins sem berjast í réttlátu stríði,“ sagði Netanjahú.

„Það er nákvæmlega svona sem hin nýja gyðingaandúð birtist okkur, hún hefur fært sig úr háskólum í Vesturlöndum í dómstóla í Haag. Þvílík skömm,“ bætti hann við.

Benjamín Netanjahú hét því að halda átökum við Hamasliða áfram og sagði að engin ákvörðun eða þrýstingur úr nokkurri átt kæmi til með að hindra Ísraelsmenn í baráttu sinni.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur einnig komið Netanjahú til varnar. Hann sagði ákvörðun aðalsaksóknarans svívirðilega og að ekkert jafngildi væri á milli leiðtoga Ísraels og Hamas og ítrekaði stuðning sinn við Ísrael í yfirlýsingu sem hann gaf frá sér í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×