Fótbolti

Inter byrjar tíma­bilið af krafti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Inter fagnar öðru marka sinna í kvöld.
Inter fagnar öðru marka sinna í kvöld. EPA-EFE/FABIO MURRU

Inter frá Mílanó byrjar tímabilið í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, af krafti. Liðið van góðan 2-0 útisigur á Cagliari í kvöld sem þýðir að liðið hefur unnið báða leiki sína til þessa án þess að fá á sig mark.

Segja má að Inter hafi gert út um leikinn á fyrsta hálftíma leiksins. Hægri vængbakvörðurinn Denzel Dumfries skoraði fyrra markið á 21. mínútu eftir undirbúning Marcus Thuram. Aðeins níu mínútum síðar var komið að hinum vængbakverðinum.

Federico Dimarco skoraði reyndar ekki en hann lagði upp mark fyrir Argentínumanninn Lautaro Martínez og staðan 0-2 í hálfleik. Eftir þetta lokaði Inter einfaldlega leiknum og vann góðan 2-0 sigur.

Inter er í 3. sæti deildarinnar með markatöluna 4-0 eftir tvo leiki. Þegar tvær umferðir eru búnar í Serie A eru fjögur lið með tvo sigra í tveimur leikjum. Ásamt Inter hafa nágrannar þeirra í AC Milan, Ítalíumeistarar Napolí og Verona unnið fyrstu tvo leiki sína á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×