Innlent

Sam­skipta­leysi meðal lög­reglu­manna olli því að fólk var sektað

Árni Sæberg skrifar
Lögregla hefur ekki enn hafið að sekta fólk fyrir notkun nagladekkja.
Lögregla hefur ekki enn hafið að sekta fólk fyrir notkun nagladekkja. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tilkynnt að ekki verði byrjað að sekta fyrir notkun nagladekkja að svo stöddu, þrátt fyrir að bannað sé að nota nagladekk eftir 15. apríl. Þá hafi einhverjir fengið sektir um helgina fyrir misskilning. Þær sektir verði felldar niður.

Í færslu lögreglunnar á Facebook í dag segir að nú sé tími nagladekkja liðinn og þeir sem enn eru með slíkan útbúnað þurfi að fara að skipta yfir á dekk sem hæfa betur auðum götum.

„Alltaf eru einhverjir sem hyggja á langferðir, t.d. norður í land eða Vestfirði – en þar ríkir enn vetrarfærð og þar sem landið er jú ein heild, er ekki hægt að fara að sekta fyrr en sumarfærð er komin hjá okkur öllum.“

Því vilji lögreglan byrja á því að ýta við þeim sem enn eru á negldum börðum að skipta sem allra fyrst. Í upphafi maí verði staðan endurskoðuð og væntanlega byrjað að sekta upp úr því.

Einhverjir þegar verið sektaðir

Tveir netverjar spurðu lögregluna þá hvers vegna einhverjir hefðu fengið sektir í þessari viku. Það segir lögreglan hafa verið vegna misskilnings.

„Þær verða felldar niður þar sem sama verður yfir alla að ganga. Því miður voru skilaboð hér innanhúss ekki nægjanlega skýr og því varð úr sá leiði misskilningur og nokkrir ökumenn fengu sektir. Það verður lagfært okkar megin. Vegna þess að vetrarfærð ríkir enn á hluta landsins er ekki hægt að byrja að sekta, en þó gerum við það um leið og það breytist.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×